Edinborg

Lítil stórborg með ævintýri við hvert fótmál

edinburgh-skyline-calton-hill.jpeg
 
 
 

Edinborg

Edinborg er höfuðborg Skotlands og önnur stærsta borg landsins á eftir Glasgow með tæplega hálfa milljón íbúa. Hún er einstaklega fögur borg sem býr yfir mikilli sögu og merkilegri byggingalist og hafa bæði gamli og nýi bærinn komist á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Edinborg iðar af fjölbreyttu mannlífi, fjölskrúðugt menningarlíf blómstrar, þangað kemur fólk frá öllum heimshornum til háskólanáms og borgin er jafnframt þungamiðja stjórnmálalífs í Skotlandi því þar situr skoska þingið.

Edinborg er byggð á nokkrum hæðum, þeirra frægust er Sæti Artúrs sem er þeirra hæst. Edinborgarkastali gnæfir yfir í hjarta borgarinnar og flest það sem vinsælt er að skoða er í göngufæri við hann. Góðir veitingastaðir og pöbbar eru á hverju strái og fyrir þá sem vilja versla er úr miklu að moða, aðalverslunargatan er Princes Street.

Af öðrum stöðum sem vert er að heimsækja í Edinborg má t.d. nefna National Museum, Royal Botanic Garden, einn frægasta og elsta grasagarð heims sem opinn er allt árið, St. Giles Cathedral dómkirkjuna og dýflissurnar (Edinburgh Dungeons) sem bjóða bæði upp á leiksýningar og leiðsögn. Þess má loks geta að Edinborg er þekkt víða um lönd fyrir mikinn fjölda fjölbreyttra hátíða og menningarviðburða af ýmsum toga sem þar fara fram árið um kring.